top of page
Fyrsti lausi heilgómurinn gervitennur þurfa ekki að líta gervilega út

Fyrsti lausi heilgómurinn

Gervitennur þurfa ekki að líta gervilega út.

Fyrsta skref

Það er alltaf stór og erfið ákvörðun að sætta sig við að síðustu tennurnar þurfi að fara.  En þegar búið er að taka þessa ákvörðun er mikilvægt að vita að gervitennur þurfa ekki að líta gervilega út.  

Það er um að gera að halda í einkennin sín, eins og bil á milli tanna, mislitun og snúnar tennur til dæmis.  Allt til þess að nýju tennurnar rími við aldur og fyrri störf.

Ferlið

Eftir nákvæma máttöku af mjúkvefjum og mögulega nokkrum eigin tönnum vinna tannlæknir og tannsmiður hönd í hönd að hanna undirlag og tennur sem passa þér bæði til að tyggja með og ekki síður útlitslega.  Við hittumst í nokkur skipti til að máta þar til allir eru sáttir og þá klárar tannsmiðurinn sína vinnu.  Eigin tennur eru ekki fjarlægðar fyrr en heilgómurinn er tilbúinn svo einstaklingurinn er aldrei tannlaus.

Aðlögun

Til að byrja með þarf heilmikla aðlögun í að venjast nýjum heilgóm hversu vel sem hann er smíðaður.  Hann virkar yfirþyrmandi stór og hreyfist jafnvel til þegar fólk tyggur og talar.  Kinnar og tunga þurfa að læra að hemja hann og slímhúðin undir þarf að aðlagast hinu nýja álagi.  

Andlitsdrættir geta jafnvel breyst til að byrja með því allir vöðvar eru spenntir til að styðja við þennan nýja aðskotahlut.  Sem betur fer höfum við flest heilmikla aðlögunarhæfni og þá slaknar á vöðvum með tímanum og með jákvæðu hugarfari lærir fólk að tyggja og tala án þess að láta heilgóminn trufla sig.

Særindi

Það tekur slímhúðina nokkrar vikur að venjast og aðlagast nýju álagi.  Þá er gott að vera í reglulegu eftirliti svo hægt sé að aðlaga heilgóminn til jafnóðum og fóðra inní hann eftir því sem beinið undir rýrnar.

Eftir því sem við eldumst þá minnkar oft munnvatnsframleiðsla sem gerir það erfiðara að nota lausa  heilgóma, bæði minnkar festa þeirra ef munnvatnið vantar og líkur á særindum aukast.  Slímhúðirnar þynnast og þola  þá ekki þrýstinginn jafnvel.  Þá er gott að vita að hægt er að fóðra með mjúku siliconi sem minnkar álagið á slímhúðina og bætir líðan.

Smellur í lausa neðri góma

Fólki gengur yfirleitt betur að venjast að nota heilgóm í efri því hann nær að sjúga sig nokkuð fastan.  

Sá neðri er flestum erfiðari því hann situr með hreyfanlega vefi allt í kringum sig eins og tungu og munnbotn sem lyftist upp og niður.  

Þeim sem illa gengur að hemja neðri góminn býðst einföld lausn sem getur algjörlega breytt öllu og bætt lífsgæði.  

Þá setjum við niður tvo tannplanta á augntannasvæði með smellum sem festast í innra byrði heilgómsins og koma þannig í veg fyrir að hann lyftist upp að framan eða færist fram og til baka í munninum.  Með því að minnka hreyfanleikann minnkum við einnig líkur á særindum.

Smellur í lausa neðri góma

Þrif

Það þarf að bursta heilgóm alveg eins og okkar eigin tennur því á hann sest bæði tannsýkla og matarleifar.  Öll laus tanngervi þarf að taka úr munni að minnsta kosti tvisvar á dag til að þrífa.  

Best er að nota fljótandi handsápu eða gervitannasápu frekar en tannkrem því það rispar plastið smám saman þannig að bakteríur loða frekar við.  Við mælum með að nota sérstaka heilgómabursta sem nær vel ofan í innra byrði heilgómsins.  Einnig er gott að nota extra mjúkan bursta í munn og bursta yfir tungu og tannhold.

Til að halda gervitönnum ferskum er gott að leggja þær reglulega í hreinsivökva, tafla leyst upp í vatni, 1-2 sinnum í mánuði í um það bil 15 mín.

Eftirlit

Mjög mikilvægt er að vera í reglulegu eftirliti hjá tannlækni þó engin tönn sé í munninum lengur því það þarf einnig að fylgist með hvort allar slímhúðir og tunga séu heilbrigð auk þess að athuga hvort  þurfi að aðlaga eða endursmíða gervitennur vegna rýrnunar á beinum og slímhúð.  

Gómaþvottavél

Heilgómaþvottavél

Þú slakar á í stólnum á meðan þvottavélin þrífur lit og tannstein og eftir 15-20 mínútur eru tennurnar orðnar skínandi hreinar.

Heilgómur fyrir
Heilgómur eftir

Heilgómur fyrir og eftir þvott í heilgómaþvottavél.

bottom of page