top of page
Pregnant Belly

Tannvernd á meðgöngu

Góð munnheilsa verðandi móður leggur grunninn að tannheilsu barns. 

Meðgangan

Vel hirtur munnur sem er heilbrigður er varla í nokkurri hættu á að það breytist á meðgöngu.  Með einföldum forvörnum er hægt að lágmarka líkur á vandamálum tengdum meðgöngunni.  

Hins vegar breytast oft matarvenjur, nart eykst og jafnvel fylgir ógleði og uppköst.  Þetta getur aukið líkur á tannskemmdum og glerungseyðingu.  Mikilvægt er því að vera meðvituð um þetta og huga sérstaklega að tannhirðunni og um fram allt að forðast sætindi á milli mála, það á einnig við um drykki.

Tannhold

Margar þungaðar konur verða varar við auknar tannholdsbólgur með tilheyrandi blæðingum við lítið áreiti eins og tannburstun og tannþráðsnotkun.  

Blæðing í tannholdi er fyrsta vísbending um tannholdsbólgur.  Ástæðan er að bakteríur liggja niður undir tannholdinu sem veldur bólgum og blæðingum ef ekki er burstað og þrifið nógu vel. Við þetta verður holdið viðkvæmt og jafnvel þannig að fólk fari að hlífa sér við burstun með þeim afleiðingum að bólgan verður enn verri og þetta verður hálfgerður vítahringur. 

Hormónabreytingar við þungun minnkar viðnám tannholdsins gagnvart bakteríum og það bólgnar auðveldar.  Við þetta verður enn mikilvægara að sinna tannhirðunni vel og ekki hlífa sér þó blæði þegar burstað er upp við tannholdið. 

Meðganga er tímabundið ástand svo tannholdsbólgur í stuttan tíma hafa ekki mikil áhrif í annars heilbrigðum munni.

Sýrueyðing / glerungseyðing

Eftir því sem barnið stækkar verður minna pláss í maganum fyrir mat og því er konan að borða oftar yfir daginn.  Brjóstsviði getur aukist vegna þrýstings og bakflæðið sýruþvær tennurnar. Það veldur ekki tannskemmdum en glerungurinn þynnist smám saman.  Síendurtekin uppköst geta valdið glerungseyðingu.  Best er að skola munninn með flúorskoli eða 1 tsk af matarsóda leyst upp í vatni fyrst á eftir.  Ekki er mælt með að bursta tennur fyrr en eftir um það bil 30 mínútur.

Móðir og barn

Það er hagur barnsins að móðirin sé með heilbrigða bakteríuflóru í munninum sem fæst með góðri hirðu.  Talið er að móðirin smiti barnið af eigin örveruflóru á fyrstu dögunum svo heilsa móður er í þessu eins og öðru mikilvæg.

Hvað er til ráða?

Góðar forvarnir sem felast í góðri heimavinnu í að nota tannþráð og bursta með flúortannkremi. Heimsækja tannlækninn reglulega til að þrífa tannstein þannig að bólgur nái sér ekki á strik.  Ef erfitt er að ná þeim niður þá er gott að skola með Klórhexidín munnskoli sem hefur bakteríuhamlandi verkun.  

Best er að huga að tannlæknaheimsókn snemma á meðgöngu þannig að ef þarf að gera eitthvað sé hægt að ljúka því áður en barnið kemur í heiminn.  Eftir því sem líður á verður erfiðara að liggja lengi út af í tannlæknastól.

bottom of page