top of page
Munnþurrkur

Munnþurrkur

Munnþurrkur er vandamál sem hrjáir um 30% landsmanna.

Fræðsla

Flest höfum við einhvern tíman upplifað þurran munn, fáum okkur vatnssopa og málið er leyst.  Hjá fólki með viðvarandi munnþurrk dugir ekki að fá sér vatnssopa, munnurinn er jafn þurr þegar búið er að kyngja.  

Munnvatnskirtlar

Við erum með þrjú pör af munnvatnskirtlum sem fara að framleiða þegar við borðum eða bara hugsum um mat.  Svo erum við með fjöldan allan af litlum kirtlum sem sjá um að halda slímhúðinni í munnholi og hálsi rakri og ver gegn sýkingum.  

Munnvatn

Meltingin hefst í munninum því í munnvatni er ensím (amýlasi) sem byrjar að brjóta niður fæðuna.  

Munnvatnið þynnir einnig út sýrurnar sem tannskemmda bakteríurnar framleiða þegar þær komast í sykur og draga með því úr skaðanum sem sýrurnar geta unnið á tannvef.

Í munnvatninu er einnig kalk sem gengur inn í yfirborð tanna og endurkalkar þær eftir sýruárás.  Erfðir virðast hafa meiri áhrif en mataræði á magn kalks í munnvatni. 

Orsakir

Stóru kirtlarnir halda nokkuð vel virkni sinni yfir ævina en litlu kirtlarnir eru viðkvæmari og dregur oft úr framleiðslu þeirra með aldrinum.

 

Mjög mörg lyf hafa áhrif á munnvatnsframleiðslu.  Þetta eru til dæmis blóðþrýstingslyf, kvíða- og þunglyndislyf ásamt verkjalyfjum svo fátt eitt sé nefnt.  

Mataræði hefur áhrif eins og Ketó og almennur næringarskortur.

Mikil streita, hár lofthiti og neysla koffín drykkja dregur úr framleiðslunni tímabundið.  Einnig getur geislameðferð á höfuð og hálssvæði varanlega skemmt kirtlana, stóra sem smáa.

Margar konur finna fyrir auknum munnþurrk í tannholdi á breytingaskeiði ásamt þurrk í öðrum slímhúðum vegna lækkunar á estrogeni í líkamanum.  Estrogenið viðheldur raka í slímhúðum.  Rannsóknir hafa sýnt beina tengingu á milli lækkunar á estradioli  í munnvatni og munnþurrks og truflana á bragðskyni. 

 

Sjögrens heilkenni er sjálfsofnæmissjúkdómur sem ræðst meðal annars á munnvatnskirtla með tilheyrandi munnþurrk.

Afleiðingar

Almenn vanlíðan fylgir munnþurrki, hann truflar bragðskyn og jafnvel tal.

 

Það að hafa ekki nóg munnvatn getur haft dramatískar afleiðingar fyrir tannskemmdatíðni því munnvatnið er okkar fyrsta vörn gegn bakteríum.

Tannsýklan eða skánin sem myndast er upphleðsla af bakteríum verður þykkari og erfiðara verður að bursta hana af.   Bakteríurnar breyta öllum sykri sem þær komast í, hvort sem hann er úr ávöxtum eða súkkulaði, í sýrur sem éta gat á yfirborð tannanna.  Nóg munnvatn þynnir út þessar sýrur og minnkar skaðann sem þær geta valdið.

 

Munnþurrkur gerir slímhúðir viðkvæmari fyrir sýkingum og það verður erfiðara að nota laus tanngervi eins og heilgóma og parta því festan minnkar og fólk fær frekar nuddsár.

 

Til að líða betur þá verður tilhneiging til að narta á milli mála og stinga upp í sig einhverju til að örva munnvatnsframleiðsluna.  Þá er mikilvægt að það sé eitthvað sem innihaldi ekki sykur því það væri eins og að hella olíu á eld hvað tannskemmdir varðar.

Hvað er til ráða?

Mikilvægt er að drekka mikið vatn og minnka koffín drykkju.  Minnka nart og halda sætindum í lágmarki.

Leitaðu ráða með ýmis hjálparefni eins og spray eða gel til að minnka óþægindin sem fylgja miklum þurrki.  Einnig mælum við með að nota tannkrem með hærra flúor innihaldi. 

Eftirlit hjá tannlækni

Að lokum viljum við leggja mikla áherslu á mikilvægi þess að vera í þéttu eftirliti hjá tannlækni svo hægt sé að grípa inní fljótt og vel því tennur geta brunnið upp ótrúlega hratt í þurru umhverfi ef þær eru að fá sykur reglulega.

bottom of page