top of page
Kæfisvefn

Kæfisvefn

Kæfisvefn er talinn vera á vægu stigi ef öndunaratburðir eru 5-15 á klukkustund, meðalháu stigi ef öndunaratburðir eru 15-30 á klukkustund, og alvarlegu stigi ef þau eru fleiri en 30 á klukkustund.

Kæfisvefn

Er alvarlegt ástand sem getur haft víðtækar afleiðingar á heilsu okkar.  Ef þú hefur grun um að þú sért með kæfisvefn ráðleggjum við þér að leita læknis og fara í svefnrannsókn.  Þessar rannsóknir eru oft gerðar heima með lánsbúnaði en einnig á sjúkrastofnunum.  Hér áður var nær eingöngu horft til karlmanna í yfirþyngd en nýjar rannsóknir sýna að kæfisvefn kemur einnig fram hjá grönnum konum og jafnvel börnum.  

Einkenni

Öndunarstopp og oft miklar hrotur.  Fólk vaknar þreytt þrátt fyrir fullan nætursvefn og jafnvel dottar í tíma og ótíma yfir daginn.

Orsakir

Þegar við liggjum á bakinu þá slaknar á öllum vöðvum og tungan dettur aftur í kok og lokar öndunarveginum þannig að það verða síendurtekin öndunarstopp með minnkun á súrefni til heilans og tilheyrandi truflun á svefni.  Heilinn er rifinn upp úr djúpa svefninum til að kalla á súrefni, viðkomandi rumskar varla en grípur andann og svo endurtekur þetta sig mörgum sinnum yfir nóttina.

Afleiðingar

Mikil dagsyfja sem veldur slysahættu til dæmis í umferðinni og fólk sækir oft í einföld kolvetni til að ná upp orkunni.

Fylgikvillar

Fólk með kæfisvefn er oft með hækkaðan blóðþrýsting sem svarar illa lyfjameðferð og einnig er tenging við hjartabilun.  

Það geta komið fram hjartsláttartruflanir í öndunarstoppunum.  

Oft fylgir líka truflaður sykurbúskapur og er sykursýki algengari hjá þeim sem eru með kæfisvefn en hjá samanburðarhóp.  

Við öndunarstoppin verður mikill undirþrýstingur í brjóstholinu sem eykur líkur á vélindabakflæði.  Bakflæðið getur gefið öndunarfæra einkenni sem líkjast ashma en breytast lítið við meðferð með ashmalyfjum.

Hvað er til ráða?

Létta sig þegar það á við og forðast áfengi og róandi lyf.  Reyna að sofa á hliðinni.

Kæfisvefnsvél fyrir þá sem eru með mikinn kæfisvefn.

Hrotugómar duga mörgum sem hrjóta eða eru með vægan kæfisvefn. 

LHS logo
Heilsuvera logo
bottom of page