top of page
Tanngervi tannsmiðir eru snillingar í að búa til ný bros

Tanngervi

Tannsmiðir eru snillingar í að búa til ný bros.

Trios 3D skanni

Máttökur fyrir flesta tannsmíði eru gerðar með 3D skanna sem sendir allar upplýsingar rafrænt í gegnum örugga gátt til tannsmiðsins og þú losnar við að fylla munninn af misbragðgóðum mátefnum.

3shape skanni

Föst tanngervi

Allar tennur sem eru smíðaðar af tannsmið og koma í stað náttúrulegra tanna kallast tanngervi, þau geta svo verið föst eða laus.

Föst tanngervi eru krónur og brýr sem eru annað hvort límd föst við eigin tennur fólks eða skrúfuð föst við beingróin titanium tannplanta.

Laus tanngervi eru heilgómar eða partar.

Króna

Er hetta sem er sett utan um þína eigin tönn til að auka styrk og/eða bæta útlit.  

Tennur sem eru mikið viðgerðar, jafnvel rótfylltar og því brothættari hafa hag af krónu sem getur lengt líftíma tannarinnar.  Tennur sem hafa brotnað eða eru mikið slitnar þannig að það hafi áhrif á útlit hennar eru einnig krýndar til að bæta styrk og útlit.

Krónusmíði krefst oftast tveggja heimsókna.  Í fyrri tímanum er tönnin þín pússuð til þannig að pláss sé fyrir næga þykkt af postulíni til að gefa styrk.  Þar næst er tekið 3D skann af tönnunum sem er sent rafrænt í gegnum örugga gátt til tannsmiðs.  Þú ferð heim með bráðabirgða krónu úr plasti, kemur aftur eftir um það bil 2 vikur þegar tannsmiðurinn hefur framleitt krónuna fyrir okkur og við límum hana niður.

Brú

Er smíðuð þegar við höfum tapað tönn en eigum sterkar tennur sitt hvoru megin við skarðið sem hægt er að nota sem brúarstólpa/stoðtennur.  Þá þarf að pússa niður sem nemur um það bil glerungsþykkt á stoðtönnunum og tannsmiðurinn hannar brú þar sem stoðtennurnar halda á tönn á milli sín.

Tannplantar

Tannplantar eru titanium skrúfur sem eru græddar í bein þar sem tönn eða tennur hafa tapast.  

Þeir geta þjónað sem "rót" undir eina staka tönn og sem brúarstólpar þar sem til dæmis 2 tannplantar bera 4 tennur.  Nokkrir saman dreifðir um tannlausan góm geta þeir borið heila brú sem er skrúfuð föst.  Einnig geta þeir þjónað sem smellur undir lausa heilgóma.

 

Að fá sér tannplanta með krónu tekur lengri tíma en að fá sér hefðbundna brú sem er borin af þínum eigin tönnum.  Fyrst er græðslufasi eftir að ónýt tönn er fjarlægð og beinið grær.  Því næst er tannplantinn settur niður og látinn gróa í um það bil í 3 mánuði áður en smíðað er ofan á hann.  Svona ferli getur því tekið allt að 6 mánuðum í heildina.  Kosturinn er hins vegar sá að ekki þarf að snerta kannski heilbrigðar tennur sitt hvoru megin við skarð eins og í brúarsmíði.

 

Til þess að meta hvort þú getir fengið tannplanta eru gerðar röngen- og stundum þrívíddar greiningar í stærri tilfellum til að meta gæði beinsins.

Tannplanti og króna
Tannplanta brú
Smellur undir heilgóma

Tegundir tannplanta - skiptir það máli?

Já algjörlega að okkar mati.  Við mælum eingöngu með tannplöntum sem hafa á bak við sig klíniskar rannsóknir því hvernig getur framleiðandi annars staðhæft gæði og öryggi vörunnar án vísindalegra langtíma rannsókna.  Þessir stóru framleiðendur sjá einnig til þess að tannlæknar sem eru að nota vörurnar þeirra fái viðeigandi þjálfun í að setja niður tannplantana og að vinna við smíðina ofan á þá.

Þau merki sem við hjá Tannir tannlæknastofu vinnum aðallega með eru Straumann og Nobel Biocare.

Straumann er með yfir 60 ára rannsóknarsögu.

Nobel BioCare er með 65 ára rannsóknarsögu og voru þeir fyrstu til að setja niður tannplanta.

 

Við setjum almennt ekki niður tannplanta heldur vinnum náið með sérfræðingunum okkar á því sviði.  Margrét setur eingöngu niður tannplanta á framtannasvæði neðri góms til að nota sem smellur undir heilgóma.

Straumann logo
Nobel biocare logo

Tannpartur

Er smíðaður úr stáli og gómaplasti til að koma í stað tapaðra tanna þar sem einstaklingurinn er enn með nokkrar sterkar tennur sem geta borið partinn.  

Partur er þá bæði borinn uppi af tönnum og tannholdi og fær festu sína með krókum og/eða smellum.

Partar eru einnig stundum smíðaðir eingöngu úr gómaplasti og þá notaðir til bráðabirgða enda ekki eins sterkir og stálpartar.

Heilgómur

Er smíðaður þegar fáar eða engar tennur eru eftir sem geta borið tannpart eða önnur föst tanngervi.  

Það er alltaf stór og erfið ákvörðun að sætta sig við að síðustu tennurnar þurfi að fara eins og til dæmis þegar tannholdssjúkdómur hefur skemmt bein og með því festu fyrir tennur.  Því það er ekkert sem raunverulega kemur í staðin fyrir okkar eigin tennur þrátt fyrir mikla framþróun í tannsmíði og tækni.  Þegar búið er að taka þessa ákvörðun er hins vegar mikilvægt að vita að heilgómur eða gervitennur þurfa ekki að líta gervilega út.  Það er um að gera að halda í einkennin sín, eins og bil á milli tanna, mislitun og snúnar tennur til dæmis.   Allt til þess að tennurnar rími við aldur og fyrri störf.

Heilgómur getur líka verið notaður til bráðabirgða á meðan bein grær svo hægt sé að setja tannplanta sem geta borið fasta brú.

bottom of page