top of page
Andlits og kjálkaliðsvandamál streita getur valdið tanngnísti á nóttunni sem getur leitt af sér höfuðverki, kjálkaverki og slitnar tennur

Andlits og kjálkaliðsvandamál

Streita getur valdið tanngnísti á nóttunni sem getur leitt af sér: höfuðverki, kjálkaverki og slitnar tennur.

Orsakir

Orsakir eru margvíslegar.

Mikilvægt er að taka góða sjúkrasögu því lýsing á einkennum gefur góðar vísbendingar um hver grunnorsökin er.  Oftast eru þetta sem betur fer tímabundin einkenni sem koma eftir áverka til dæmis.

Tann- og/eða bitskekkja 

Skakkt bit getur orsakað að þéttasta samanbit tanna þvingi kjálkaliðina annan eða báða úr réttu sæti.  Þetta getur til lengri tíma skapað ofálag með tilheyrandi ónotum eða verkjum í andliti.

Tannagnístur og munnherkjur

Mikið gnístur bæði slítur tönnum með tímanum og þreytir vöðva.  Ef gnístur er viðvarandi og ekki hægt að stöðva eða minnka það er hægt að gera gnísturgóm sem þá ver tennurnar frekara sliti og kemur í veg fyrir kostnaðarsamar viðgerðir síðar á ævinni.

Langvarandi munnherkjur geta gengið fram af andlits- og tyggivöðvum sem verða þá undirlagðir af vöðvabólgu.  Hér er mikilvægt að greina bit viðkomandi því orsakirnar geta stundum legið í litlum truflandi snertingum í bitinu sem geta keyrt vöðvana í gang á næturnar þegar þeir eiga að vera að hvíla sig.  

Mikil streita veldur því stundum að við bítum á jaxlinn í tíma og ótíma sem veldur ofálagi á tyggingarfærin.

Gigt

Ýmis gigt eins og til dæmis slitgigt og vefjagigt getur lagst á kjálkaliði eins og aðra liði.  Hér er til dæmis mikilvægt að koma í veg fyrir alla aukavinnu vöðvanna eins og gnístur og forðast að ofbjóða tyggifærunum með grófmeti.

Áverkar

Hálshnykkur eftir aftanákeyrslu getur valdið tognun á kjálkalið með tilheyrandi ofálagi á aðliggjandi vöðva.

Einkenni

Andlitsverkir, skert opnunargeta og lítið úthald í tyggivöðvum, höfuðverkir, smellir í kjálkaliðum jafnvel eyrnaverkir með suði (tinnitus) eða jafnvægisleysi.

Meðferð

Mikilvægt er að greina orsakir ástandsins svo hægt sé að veita rétta meðferð.

Bitgreining hjá tannlækni er nauðsynleg.

Rétt gerðar slípanir á glerung geta minnkað til muna truflandi snertingar sem minnkar þá álagið á vöðvana.  

Sérhæft nudd og meðferð hjá sjúkraþjálfara hjálpar mikið til að ná  bólgum úr vöðvum.

Til að viðhalda góðu ástandi og minnka eða koma í veg fyrir aukavinnu vöðvanna á nóttunni getur sérhannaður bitgómur gefið þeim hvíldina sem þeir þurfa til að losna úr þessum vítahring.

bottom of page