top of page
Glerungseyðing og bakflæði

Glerungseyðing og bakflæði

Hvað er glerungseyðing?

Það er þegar ysta lag glerungsins leysist upp smám saman og kemur ekki aftur.  Í fyrstu er þetta algjörlega sársaukalaust og erfitt að sjá þetta sjálfur.

Á seinni stigum geta tennurnar hins vegar orðið næmari fyrir kulda og hita og viðkvæmar þegar þær eru burstaðar.

Þegar þú drekkur eða borðar eitthvað sem er súrt fer af stað uppleysing á kalki úr yfirborði tannanna.  Munnvatnið inniheldur kalk sem gengur inn í yfirborðið og endurkalkar tönnina.  En ef þú ert sífellt að fá þér sopa af til dæmis súrum drykk þá hefur munnvatnið ekki undan þannig að glerungurinn þynnist smám saman. 

Mikilvægt er að greina á milli glerungseyðingar sem stafar annars vegar vegna ofneyslu súrra drykkja, gosdrykkja og ávaxtasafa og hins vegar af völdum magasýru.

Bakflæði og glerungseyðing

Bakflæði er það kallað þegar magasýra og magasafi flæðir upp í vélindað og jafnvel upp í munn.

Við þetta getur magasýran komist í snertingu við tennurnar og valdið glerungseyðingu sem sést fyrst á innanverðum jöxlum og aftan á framtönnum efri góms.  Oftast er hér um að kenna of stóru magaopi.  Þetta eru óværu börnin sem skila brjóstamjólkinni í stórum spýjum.  Þannig að eyðingin hefst á unga aldri og við 10 ára aldur fara fyrstu fullorðins jaxlarnir að láta á sjá.

Hvað er til ráða?

Ef þig grunar að þú sért með vélindabakflæði er mikilvægt að leita til læknis og fá við því viðeigandi lyf áður en mikill skaði verður á tannvef.

Mikilvægt er að beita forvörnum og hvetja til réttrar tannhirðu, reglubundins eftirlits og fá leiðbeiningar með mataræði.

Nauðsynlegt er að bera snemma kennsl á glerungseyðingu og greina hugsanlegar orsakir til þess að mögulegt sé að stöðva frekari skemmd glerungsins sem leiðir til viðameiri tannviðgerða seinna á ævinni.

Súrir drykkir og glerungseyðing

Glerungseyðing er vaxandi vandamál hjá börnum og ungmennum á Íslandi og gæti orðið tannsjúkdómur framtíðarinnar í ljósi þess að neysla ungmenna á orkudrykkjum er stöðugt að aukast.

Glerungseyðing sem tengist notkun súrra drykkja er yfirleitt mest áberandi á framtannasvæði.

Hvað er til ráða?

Drekktu frekar vatn við þorsta.

Takmarkaðu neyslu súrra drykkja og matvæla eða neyttu þeirra eingöngu á matmálstímum.  Ljúktu við súra drykkinn á stuttum tíma, frekar en að vera að dreypa á honum í langan tíma.  Það hlífir tönnunum að drekka með röri.  Skolaðu munninn vel með vatni eftir að hafa fengið þér eitthvað súrt.  Ekki bursta strax eftir súran mat eða drykk því hætta er á að bursta burt tannvef sem er viðkvæmur eftir sýruna.

Notaðu alltaf tannbursta með mjúkum hárum og tannkrem með litlu eða engu slípiefni, minna en 250 RDA.

bottom of page